Spegilmyndin
Spegilmyndin er mannlífsþáttur um kvenheilsu, heilbrigðan lífsstíl, mataræði, hreyfingu, tískustrauma, líkamsvirðingu og fegrunar- og lýtaaðgerðir. Höfundur og þáttastjórnandi er Marín Manda Magnúsdóttir, menningarmiðlari og nútímafræðingur en framleiðandi sjónvarpsþáttanna er Orca Films. Hlaðvarp Spegilmyndarinnar lítur dagsins ljós samhliða sjónvarpsseríu 2 af Spegilmyndinni sem sýnd verður á Stöð 2 og Stöð 2+ í mars og apríl 2023. Í hlaðvarpinu ræðir Marín Manda við viðmælendur sína um það helsta í heilsu og fegrunariðnaðnum á Íslandi líkt og hún gerir í sjónvarpsþáttunum. Hún skyggnist inn í ýmis áhugaverð málefni sem eru áberandi í umræðunni en viðmælendur eru af ýmsum toga. Ber þar að nefna húðlækna, næringarfræðinga, sálfræðinga, heilsuráðgjafa, snyrtifræðinga, þjálfara, kvensjúkdómalækna, lýtalækna og aðra sérfræðingar sem tengjast viðfangsefninu hverju sinni.
Episodes
Sunday Sep 22, 2024
Sunday Sep 22, 2024
Karin Kristjana Hindborg er mörgum kunn, en síðustu 10 ár hefur hún rekið verslunina NOLA og þekkir snyrtivörumarkaðinn gríðarlega vel. Karin hefur um þó nokkurt skeið tekið umræðuna á sínum miðlum um neytendablekkinguna sem fyrirfinnst hér á landi hvað varðar snyrtivörur af gráa markaðnum og fyrir skömmu rataði sú umræða í fjölmiðla. Hún segir það vera henni hjartans mál að þetta komi upp á yfirborðið. Í þessum þætti ræðir hún þessi mál og óskar eftir skýrari lagaramma og frekara eftirliti á snyrtivörum sem seldar eru í verslunum víða - hvers vegna? Jú því það er enginn rekjanleiki, engin ábyrgð og enginn gæðastimpill á vörum af gráa markaðnum.
* Þessi þáttur er í boði Max Factor, Netgíró og Klaka.
Sunday Sep 15, 2024
Sunday Sep 15, 2024
Kári Sverris ljósmyndari og fagurkeri er gestur Spegilmyndarinnar að þessu sinni. Hann ákvað að taka lífstíl sinn í gegn fyrir ekki svo löngu síðan, fara að stunda líkamlega og andlega rækt og setja sjálfan sig svolítið í fyrsta sæti. Hann segir að þá hafi hann fundið sköpunarkraftinn aftur sem býr innra með honum og hann hafi farið að sjá fegurðina í litlu hlutunum, skuggum og ljósi. Sýningarnar, The Art Of Being Me og Being Me urðu til í kjölfarið en þær hafa fengið mikið lof.
Kári Sverris hafði engan sérstakan áhuga á tísku þegar hann var mjög ungur, þrátt fyrir að foreldrar hans voru í tískubransanum. Hann var svolítill einfari og þótti notalega að vera einn að veiða. Á unglingsárunum fór hann að vinna hjá NTC, vann sig upp og fór að læra útstillingar. Eitt leiddi af öðru og fljótlega kviknaði áhugi hans á ljósmyndun og allskonar fagurfræði. Í þessum þætti förum við yfir líf hans þegar hann var nýgræðingur í ljósmyndabransanum og hvert hann stefnir í dag en framundan eru allskonar áhugaverð verkefni.
*Þessi þáttur er í boði KLAKA, MAX FACTOR og NETGÍRÓ
Sunday Sep 08, 2024
Sunday Sep 08, 2024
Þorbjörg Hafsteinsdóttir er mögnuð kona. Hún rithöfundur, lífsmarkþjálfi og yogakennari . Hún hefur skrifað fjölmargar bækur um heilsu og heilbrigði og í dag heldur hún fyrirlestra fyrir stjórnendur fyrirtækja til að koma til móts við konur á breytingaskeiðinu. Ein vinsælasta bókin hennar 10 árum yngri á 10 vikum kom út árið 2011. Hún segir að sá titill eigi kannski ekki við í dag en þó snúist þetta enn um það sama. Að mikilvægt sé að leita leiða til að lengja lífaldur og möguleikann á að líta betur út og líða betur í eigin skinni með heilbrigðari lífstíl. Þorbjörg syndir í sjónum við Danmerkur strendur allan ársins hring og æfir mörgum sinnum í viku með hópi af fólki inni í Kaupmannahöfn. Í þessum þætti ræðum við um hversu mikilvægt það er að vera hraust frameftir aldri. Frábært spjall við dásamlega konu sem segist vilja vera hraust amma þar sem hún er svo forvitin að upplifa lífið með barnabörnunum.
*Þessi þáttur er í boði Netgíró og Max Factor.
Sunday Sep 01, 2024
Sunday Sep 01, 2024
Gestur Spegilmyndarinnar er Jónas Tryggvi Stefánsson markþjálfi en hann er mikill áhugamaður um samskipti, sambönd og meðvirkni.
Jónas fékk töluvert áfall þegar hann skildi eftir 11 ára samband og ákvað að fara í mikla naflaskoðun hvað varðar sambönd og tilfinningar. Í dag heldur hann úti miðlinum Betra Box þar sem hann hjálpar fólki að vera samkvæmt sjálfum sér - en hann er á því að fólk eigi ekki að festa sig í ákveðnu boxi í lífinu. Við ræddum um sambönd og ólík sambandsform, kynlíf, sjálfsvinnu, hugleiðslu, kakó og líf hans sem fjölkær maður.
* Þessi þáttur er í boði @netgiro
Sunday Aug 25, 2024
Sunday Aug 25, 2024
Aðalheiður Jensen þjálfari er leikskólakennari í grunninn. Hún lærði Rope Jóga og lífsráðgjafann hjá Guðna Gunnarssyni heilsu- og lífsráðgjafa og um tíma kenndi hún vinsæla hópatíma hjá Primal. Fyrr á árinu stóð hún á tímamótum og hugleiddi að breyta til í lífinu sínu. Fyrir algjöra tilviljun var hún leidd áfram í átt til Guðna að nýju og hefur nú opnað sitt eigið heilsusetur í Garðabænum þar sem Rope Jóga var áður til húsa. Tilveran heilsusetur heitir það, en þar býður Aðalheiður meðal annars upp á liðleikanámskeið fyrir karlmenn sem heitir Mjúkir menn, Dansþerapíu námskeið, Dansflæði, Rope Jóga, Kröftugar konur og Sterkar stelpur. Einnig er boðið upp á opna tíma. Til að mynda Barre sem inniheldur kröftugar core æfingar. Konur og kvenheilsa er Aðalheiði mikið hugarfóstur en hún segir að það sé ákaflega mikilvægt að fólk yfir höfuð velji sé hreyfingu sem er í grunninn skemmtileg. Það eru spennandi tímar framundan hjá þessari dásamlegu konu í Tilverunni.
* Þessi þáttur er í boði NETGÍRÓ sem er örugg og þægileg greiðslulausn.
Saturday Aug 17, 2024
Saturday Aug 17, 2024
Í þessum þætti ræddi ég við Valdimar Þór Svavarsson en hann er eigandi og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu sem er ráðgjafaþjónusta. Valdimar er með MS gráðu í stjórnun og stefnumótun og BA gráðu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Auk þess er hann sérfræðimenntaður í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody og hefur gríðarlega reynslu af úrvinnslu í tengslum við meðvirkni, samskipti para og hjóna. Í þessum þætti fórum við um víðan völl og ræddum meðal annars um sjálfsaga, meðvirkni, sjálfsvirðingu og ástarþrá en einnig hvernig ákveðnar skekkjur á æskuárunum geta haft áhrif á okkur á fullorðinsárunum hvað varðar meðvirkni og samskipti. Við ræddum hvernig áföll geta erfst milli kynslóða og hvernig hægt er að endurforrita ákveðnar hugsanaskekkjur til þess að brjóta áfallakeðjuna. Magnað spjall við einstaklega áhugaverðan mann. Mæli með að þið takið fram penna og ritið niður nokkra punkta úr þessu viðtali. * Þessi þáttur er í boði NETGÍRÓ sem er einföld og örugg greiðslulausn. Skráið ykkur á netgiro.is
Thursday Aug 08, 2024
Thursday Aug 08, 2024
Sigrún Jónsdóttir er þroskaþjálfi og ADHD og einhverfu markþjálfi. Hún lauk framhaldsnámi í ADHD markþjálfun frá ADD Coach Academy ADDCA í Bandaríkjunum árið 2018 og rekur nú fyrirtækið Míró í Lífsgæðasetrinu í Hafnarfirði. Þar markþjálfar hún, veitir ráðgjöf og heldur valdeflandi námskeið. Til að mynda námskeiðið ADHD á kvennamáli sem er fyrir konur á aldrinum 18 og upp úr. Námskeiðið segir hún vera fyrir konur sem þrá að taka sviðið og birtast og vera þær sjálfar. ADHD þekkir hún af eigin raun, en hún greindist seint á lífsleiðinni og veit núna hversu áhrifarík markþjálfun er fyrir þá sem vilja yfirstíga hindranir og gera jákvæðar breytingar á lífi sínu. Hér er á ferðinni áhugavert spjall við skemmtilega konu sem hefur upplifað ýmislegt á eigin skinni.
Þátturinn er í boði NETGÍRÓ sem er einföld, örugg og þægileg greiðslulausn á netinu og í verslunum.
Tuesday Jul 09, 2024
Tuesday Jul 09, 2024
Eins og svo oft áður hef ég ákveðið að skyggnast inn í heim heilsu, lífstíls og fegurðar en einnig að kynnast spennandi fólki sem lifir áhugaverðu lífi. Að þessu sinni kom Sunneva Halldórsdóttir í spjall en hún er mastersnemi í Líf -og læknavísindum og með BS gráðu í Lífeindafræðum. Hún heldur einnig úti mjög áhugaverðum instagrammiðli sem nefnist EFNASÚPAN. Sunneva byrjaði með miðilinn í fæðingarorlofinu sínu með það að leiðarljósi að fræða fólk um efnanotkun og innihald efna í umhverfinu og í hinum ýmsu vörum. Hennar markmið er að fræða svo fólk eigi auðveldara með að taka upplýstari ákvarðanir til að velja betri kostinn þegar kemur að vörukaupum. Sunneva er einstaklega fróð og jákvæð manneskja sem fær mann virkilega til að vilja gera betur í lífinu.
* Þessi þáttur er í boði NETGÍRÓ sem er einföld og þægileg greiðslulausn sem ég mæli með, sérstaklega þegar þú verslar á netinu.
Wednesday Jun 26, 2024
Wednesday Jun 26, 2024
Ragnheiður Ragnarsdóttir leikkona eða Ragga Ragnars er gestur Marín Möndu í Spegilmyndinni að þessu sinni. Ragga er fyrrverandi afrekskona í sundi og ólympíufari en eftir að hún eignaðist son sinn ákvað hún að uppfylla annan draum, að flytja erlendis og fara í leiklistarnám. Fyrir nokkrum árum landaði hún svo stóru hlutverki sem Gunhild í Neflix seríunni Vikings og í fyrra fór hún með hlutverk Baine í vinsælum sjónvarpsþáttum, The wheel of time. Ragga er heillandi kona sem trúir því að það sem á að gerast, mun gerast og í þessum þætti ræðir hún um það hvernig hún lauk sundferlinum og tókst á við ný verkefni í lífinu, bæði sem móðir og leikkona.
Thursday Jun 13, 2024
Thursday Jun 13, 2024
Gerða Jónsdóttir er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Spegilmyndarinnar. Gerða er menntuð sem íþrótta -og heilsufræðingur en hún er með BSc gráðu í íþróttafræðum og MEd í heilsuþjálfun og kennslu frá HR. Einnig er hún með einkaþjálfara réttindi og hefur lokið dómaramáskeiðum í fimleikum. Um langt skeið hefur Gerða starfað sem einka- og hópaþjálfari, bæði í World Class og Mjölni og hefur haldið námskeið fyrir konur á meðgöngu og nýbakaðar mæður.
Einnig er hún hönnuður INSHAPE vörumerkisins sem er meðal annars sérhannað æfingarkerfi fyrir konur og heilsutengda viðburði og vörur. Gerða ræðir um margt áhugavert í þessu spjalli um heilsu og líkamsrækt en einnig fer hún yfir tímann sem hún nýtti á þessu ári til þess að taka sjálfa sig í gegn andlega og líkamlega eftir aðgerð.
Gerða er einstaklega hlý og með góða nærveru en hún leggur mikla áherslu á að hugsa um heilsuna til lengri tíma og muna að hafa vegferðina skemmtilega. Hér er á ferðinni ákaflega gott spjall við dásamlega konu sem hefur ákveðið að líta jákvæðum augum á tilveruna þar sem heilsutengt mál eru algjörlega hennar ástríða.